Gróðurfar á Teigarhorni ber almennt vott um gott ástand vistkerfisins og fjölbreyttar vistgerðir. Á náttúruvættinu skiptast á slegin tún, úthagar, klappir og óframræst votlendi með tjörnum. Þá er lítt gróið land við Búlandsárós, víðfeðmir móar með lækjum ofar í Teigarhorns landinu og ung skógrækt. Mólendið er ríkt af fjölbreyttum gróðri. Ofan þjóðvegar er ágætt berjaland, vel gróið og mikill raki í jörðu. Meðfram strandlengjunni og upp með ánni eru þó rofinn svæði.

Fýll og æðarfugl eru algengir varpfuglar meðfram ströndum á Teigarhorni. Með ströndum er einnig möguleiki að sjá ýmsar máfategundir, t.d. svartbak, silfurmáf og hettumáf sem og svartfugl, einkum teistu sem heldur til nálægt landi. Þá er algengt að sjá skarf predika á skerjum út fyrir landi Teigarhorns. Æðarfugl, grágæs og heiðagæs verpa á Teigum og óðinshani, sendlingur og tildra sjást iðulega í fjöruborðinu. Þá eru mófuglar algengir varpfuglar ofan við strandlengjuna á Teigum, spói, heiðlóa og tjaldur auk lóuþræls, stelks og jaðrakans. Algengt er að hrafnar sjáist á svæðinu og í kring um bæjartorfuna er algengt að sjá skógarþresti, þúfutittlinga og hrossagauka. Möguleiki er síðan að sjá fálka og smyrla í Búlandsdal.

Hreindýr eru algeng á Teigarhorni síðla veturs en er vorar þá halda þau upp Búlandsdalinn í leit að nýsprottnum og næringarríkum plöntum. Stundum eru rollur á svæðinu sem sleppa í gegnum girðingar og sést hefur til tófu sem og minks.