Úrdráttur úr fornleyfaskráningu Teigarhorns

„Tóttamenjar af gamlabæ rétt ofan við núv. íbúðarhús,“ segir í Sveitum og jörðum í
Múlaþingi. „Inn við tangann innst í túninu er Gamlabæjarfjara,“ segir í örnefnaskrá.
Bærinn að Teigarhorni stóð norðan undir Kambinum sem þjóðvegur 1 liggur í gegnum,
360m sunnar. Tóftir bæjarins eru enn sýnilegar en þær eru 240m norðnorðvestan við
gamla íbúðarhúsið sem reist var um 1882 og um 250m norðvestan við Hjalla 030 á Hjallstanga.

Bæjartóftirnar eru undir lágri klettaborg sem nefnist Kambur og hefur framhlið bæjar snúið til norðausturs. Skammt framan við bæinn er sjávarbakkinn og þar fremst er kálgarður 013. Fast framan eða norðaustan við tóftirnar hefur verið gerður göngustígur sem liggur um tiltölulega slétt tún milli bæjartóftanna og kálgarðsins

Bæjarhóllinn er um 40x30m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Upphleðsla hans gæti verið um 1,5m. Greina má tvær tóftir á hólnum, A og B. A er 36x15m að stærð og snýr eins og bæjarhólinn en B er 8x6m að stærð og snýr norður-suður. Tóft B er þétt suðvestan við A. Tóft A er að öllum líkindum sjálf bæjartóftin en hún er með mjög ógreinilega veggi en þó má greina 5-6 hólf í henni, mögulega sex. Fjögur hólfanna eru í röð eftir norðausturhliðinni og hefur verið timburgafl á þeim eins og sjá má á gamalli ljósmynd sem til er að bænum. Aftan við þessi hólf er fimmta hólfið, suðaustast á bæjarhólnum og næst klettunum. Sjötta hólfið er norðvestan við fimmta hólfið og gæti verið einhvers konar upphækkun eða pallur. Ekki var hægt að greina nein op á þessum aftari hólfum. Minni tóftin er einföld og eru vegghleðslur hennar eru mun greinilegri en á tóft A. Þær eru um 2m á breidd og um 40cm á hæð.