Á Teigarhorni er steindasafn, þar sem hægt er að skoða þær steindir sem finnast á Teigarhorni. Örfáir steinar eru annarstaðar frá og eru þeir þá gjafir eða til að sýna mismun steinda.
Safnið er opið eftir samkomulagi um vetrartíman og leitast er við því að opna það er gestir koma í heimsókn en opnunartímar á sumrin eru auglýstir í glugga safnsins.
Helstu steindir sem sjá má í safninu eru eftirfarandi. Með því að ýta á myndirnar má fá upplýsingar um hvern kristal.

Stilbít – blaðlaga, líkist heulandíti en er hvítt og myndar nánast alltaf kristalknippi. Algeng stærð er 1-1,5 cm, en þeir geta orðið 6 cm langir og finnast oft með heulandíti.

Skólesít – geislóttur, myndar langar hvítar eða gegnsæar nálar sem oftast eru í sveipum. Algeng lengd kristallanna eru 1-2 cm og breiddin er nokkrir mm. Lengsti kristall sem fundist hefur á Teigarhorni var um 9 cm.

Mordenít – geislótt, hvítt eða brúnleitt með fíngerðari þræði en mesólít og myndar baðmullarkenndar skánir eða brúska. Algengt er að nálarnar séu um 0,5 cm.

Heulandít – blaðlaga, myndar tæra flata kristalla. Oft er um að ræða staka greinilega kristalla í holum, en stundum vaxa þeir margir saman. Þeir geta verið bleikir á lit. Stærð þeirra er almennt 0,5-1 cm, en þeir geta orðið 10 cm langir.

Epistilbít – blaðlaga, myndar tæra kristalla sem ekki eru ólíkir heulandíti, en eru aflangir. Verður ekki meira en 1 cm á lengd.